Vonarskeyti Guðs

Norman Vincent Peale rithöfundur, sem þekktur er fyrir hvatningar sínar, skrifaði: „Jólin veifa töfrasprota yfir heiminn og sjá, allt er mýkra og fallegra.“ Þessi tilvitnun leiðir hugann að logandi eldi í arninum, fallegum sokkum sem hanga frá arinhillunni, sígrænu tré sem skreytt er glingri og englahári og í kringum það er vænlegur stafli af innpökkuðum gjöfum; hamingjusöm fjölskylda hefur komið sér þægilega fyrir í sófa. Hún fær sér kakó meðan verið er að lesa sögu fyrir börnin. Í gegnum gluggann sjást snjóflygsur sem falla mjúklega á alhvíta jörðina sem glitrar í tunglskininu. Er þetta hinn fallegi, mildi heimur sem hann ímyndaði sér?

Því miður virðast „fegurð og mýkt“ hvorki stemma við þær sorglegu myndir sem við horfum á í fréttunum eða á veraldarvefnum né þá sorglegu atburði nær okkur, til dæmis áföll vegna efnahagserfiðleika, atvinnumissis, sambandsslita og alvarlegra sjúkdóma eða ástvinamissis.

Samt sem áður verður maður var við hið „fagra og milda.“ Örlæti vina og tillitssemi fjölskyldu, hlýlegt viðmót ókunnugra og óþrjótandi vilji og dugnaður góðgerðarsamtaka við fjáröflun eru allt góð dæmi um það.

Þótt tilgangurinn sé góður er mannkærleikurinn ekki alltaf til staðar og getur brugðist. Það er hægt að hugsa lengra og dýpra, eins og presturinn Tom Cuthell skrifar: „Ár hvert endurtökum við söguna af þeim dásamlega atburði þegar Guð kom inn í þennan snarvitlausa heim og það vakti furðu okkar hvernig Guð gat komið okkur á óvart með kærleika sínum… Fæðing Jesú eru innileg andmæli gegn óbreyttum gangi mála í heiminum, gegn því að láta mannkynið um að bjarga sér sjálft og að skilja fólk eftir í fátækt sinni. Jesús er sá sem bjargar og Hann er öflug hjálp Guðs á meðal okkar; Hann er eina orðið í vonarskeyti Guðs til okkar.“

Svo ef til vill samþykkjum við skrif Hr. Peal eftir allt; að jólin geri lífið mýkra og fallegra, jafnvel þótt það fari ekki eftir því hvernig við höldum upp á þau og ekkert endilega vegna kærleikans sem við berum hvert til annars á jólunum. Því þegar allt kemur til alls, þá er það „eina orðið í vonarskeytinu“ sem gerir jólin „mjúk og falleg“; skeyti Guðs sem ekki er sent aðeins á jólahátíðinni, heldur berst það alla ævi og um ókomna tíð.