Tími kraftaverka

Fyrir nokkrum árum síðan bjó ég og starfaði í miðstöð fyrir sjálfboðaliða í litlu þorpi í Suður-Rússlandi. Viku fyrir jólin það árið skall á stórhríð sem olli því að aðal rafmagnsstrengur héraðsins fauk og slitnaði í sundur. Enginn vissi hversu lengi rafmagnsleysið myndi vara þar sem viðgerðarmennirnir þurftu að bíða eftir því að verðinu slotaði svo þeir gætu komist til svæðisins, sem orðið hafði fyrir skemmdunum og var staðsett í fjalllendi, og lagað strenginn.

Á meðan reyndu allir að komast af á sem bestan hátt. Allar stóru matvöruverslanirnar voru lokaðar og litlu búðirnar voru lýstar upp með kertum eða rafölum knúnum eldsneyti. Þar sem engin upphitun var til staðar, varð fljótlega kalt í húsunum. Fólk, sem einungis var með rafmagnseldavélar, kveikti upp eld utandyra til þess að elda matinn. Um leið og vatnsbirgðirnar í þorpinu þrutu, var ekkert vatn fáanlegt. Sem betur fer snjóaði um nóttina og við gátum brætt snjó til að drekka, þrífa og þvo okkur. Við kveiktum á kertum á kvöldin og sögðum sögur, sungum og við bjuggum til fígúrur svo við gætum búið til jólajötu.

Dagarnir liðu og ekkert rafmagn kom. Svo kom aðfangadagur og við veltum því fyrir okkur hvort við ættum nokkuð að setja jólaseríur á jólatréð eða hvort við ættum bara að hafa gamla háttinn á og nota kerti. Einn starfsbróðir okkar var hvergi banginn og sagði: „Ég ætla að setja jólaseríurnar á tréð og setja þær í samband. Guð getur gert kraftaverk og komið rafmagninu á í tæka tíð.“

Þegar við vorum að undirbúa kvöldmáltíðina á aðfangadag, var enn rafmagnslaust. Það var komið kvöld og allt var tilbúið. Búið var að leggja á borðið, búið að bera fram matinn. Við lutum höfði í bæn og færðum þakkir fyrir matinn og komu Krists til jarðarinnar sem lítið barn. Þegar við lukum bæninni og opnuðum augun gátum við næstum ekki trúað okkar eigin augum – öll ljósin í íbúðinni voru kviknuð og jólatréð var uppljómað og skein mikilfenglega. Tímasetningin var óaðfinnanleg! Verið getur að Guð hafi ekki sjálfur kveikt ljósin með yfirnáttúrulegum hætti en ég hef á tilfinningunni að Hann hafi átt þátt í því að ljósin kviknuðu einmitt á réttum tíma.