Þétt Högg

Hefurðu einhvern tímann velt því fyrir þér hvers vegna þú þurfir stundum að takast á við mikla erfiðleika í lífinu og draga af þeim lærdóm? Einmitt þegar allt gengur sem best gerist eitthvað sem dregur þig niður um nokkur stig á hamingjukvarðanum. „Hvers vegna kemur þetta fyrir mig?“ Af hverju gerist þetta?“ „Hvers vegna einmitt núna?“ Slíkar spurningar bæta ekki stöðuna heldur gera hana enn verri. Loks minnir þú þig á að þótt þú skiljir þetta ekki og sjáir ekki að baráttan leiði neitt gott af sér, skilur Guð það. Hann gerir alltaf áætlanir. Svo ef þú ákveður að treysta Honum og fylgja Honum þá leysir Hann málin í lokin.

Ekki alls fyrir löngu þegar ég var í þeirri aðstöðu þegar maður er ýmist að spyrja eða treysta á vegi Guðs var Ivo, maðurinn minn, að koma heim úr skokktúrnum sínum og sagði mér frá því sem hann hafði séð. Við búum efst í brekku þar sem eru mörg blómstrandi tré og fallegir garðar. Þetta hentar Ivo vel þar sem hann stundar reglulega líkamsrækt og er vel að sér í garðyrkju.

Dag hvern hleypur hann fram hjá torgi sem skartar gosbrunni, blómum og gróskumiklu grasi. Einn morguninn tók hann eftir hluta af grasbletti sem var að verða brúnn vegna vatnsskorts. Meirihluti grasblettsins skorti ekki vatn þar sem úðarinn voru í lagi þar en einn bilaður vatnsúðari olli því að þetta svæði var að verða þurrki að bráð og komið að því að visna og deyja.

Einmitt þegar Ivo nam staðar til þess að rannsaka málið, átti garðyrkjumaðurinn í nágrenninu leið hjá og kom líka auga á vandann. Garðyrkjumaðurinn gekk að bilaða úðunartækinu, tók hamar úr verkfæratöskunni sinni og barði nokkur þétt högg á haus tækisins. Svo virtist sem óhreinindi hefðu komist í úðarann og stíflað hausinn en þessi fáeinu högg komu losi á þau. Strax fór vatnið að flæða aftur um úðunartækið og hafði nógan kraft til þess að ná til þurra svæðisins. Með tímanum myndi þessi hluti grassins verða grænn aftur og fallegur eins og megnið af blettinum var.

Líkt og garðyrkjumaðurinn þá veitir Guð okkur stundum nokkur þétt högg til að hreinsa okkur svo við getum gert betur í lífinu og með því fegrað okkar hluta af garðinum Hans.