Óvæntur atburður

Jeppinn okkar hökti eftir ójöfnum slóða sem lá til aðalvegarins sem við myndum fara eftir til Nairobi. Við vorum á heimleið þangað eftir velheppnað hjálparstarf í afskekktu sveitahéraði í Kenya. Ég var þegar farin að hugsa til annasamrar viku sem ég átti í vændum. Næsta verkefni sem var á döfinni þurfti að áætla og skipuleggja og stundirnar í sólarhringnum virtust ekki nægja til að gera það allt.

Hnéð á mér hafði verið að angra mig í nokkra daga og ástandið hafði stigmagnast allt til þess að ég var með stöðugan seyðing. Fram að þessu hafði ég getað leitt hann hjá mér en ég vissi að á endanum myndi ég þurfa að láta lækni líta á það. Ég virtist bara ekki hafa tíma til þess svo ég sló því sífellt á frest.

Þegar ég var komin heim fór ég snemma að hátta, uppgefin og með verki. Um nóttina vaknaði ég upp við hamrandi verk og ég komst að því að ég var bólgin í kringum hnéskelina. Ég fékk mér nokkrar verkjatöflur og reyndi að sofna aftur. Um morguninn var verkurinn enn ákafari og ég hringdi í lækni sem sagði mér að koma strax til sín. Þar leiddi gaumgæfileg athugun, blóðsýnistaka og röntgen-myndataka í ljós að djúpt í hnénu var sýking sem gæti breiðst út.

Læknirinn hnyklaði brýnnar og leit yfir niðurstöðurnar: „Þú þarft að leggjast inn á spítala undir eins.“

Ég reyndi að malda í móinn: „En það er áríðandi að hitta fólk og koma hlutunum frá í þessari viku.“

„Vinnan verður að bíða!“ sagði læknirinn með festu. „Það þarf að stöðva þessa sýkingu, annars þyrfti kannski að taka af þér fótinn!“

Með trega haltraðist ég yfir til nálægs spítala til að innrita mig þar. Síðan kom hjúkrunarfræðingur með hjólastól og fór með mig inn í lítið herbergi. Þegar hún var farin var ég umvafin þögn og ég gerði mér ljósa þá staðreynd að frelsi mitt var farið. Herbergið var sótthreinsað og hvítt og gluggarnir með blómstruðum gluggatjöldum sneru að garði með trjám. Lítið sjónvarp var fest við vegginn, það var vaskur með litlum spegli og járnrúm. Ég sökk niður á milli rúmfatanna og ergelsi og áhyggjur gagntóku mig.

Brátt var dyrunum lokið upp og inn kom hjúkrunarfræðingur til að láta mig fá vökva í æð. „Hafðu ekki áhyggjur, vinan, þér batnar bráðum,“ sagði hún hughreystandi, síðan brosti hún og fór. Ég var aftur ein.

Ég gerði mér ljóst að ég átti tvo valkosti: Annar var sá að láta ástandið draga mig niður og hafa beig af hverri mínútu sem ég varði þarna. Hinn var sá að leita að því jákvæða sem hlyti að leynast bak við ástandið. Ég ákvað að velja seinni valkostinn og bað Guð um að hjálpa mér að finna gleðiefni í þessum óvæntu og niðurdrepandi aðstæðum.

Bank á dyrnar reif mig upp úr hugsunum mínum. Það var starfsbróðir minn með stóran blómvönd. Brátt fékk ég allmargar símhringingar frá ástvinum mínum sem óskuðu mér góðs bata; lund mín fór að léttast.

Mér var færð síðdegishressing sem var bakki á hjólum með te og köku. Ég gat ekki annað en glott þegar mér kom í hug að langt var síðan mér hafði verið færður matur í rúmið! Seinna að deginum hvíldi ég mig, las og horfði á kvikmynd. Það var ljómandi að gera ekki annað en að slaka á og njóta þessa óvænta, nauðsynlega hlés.

Innan fáeinna daga batnaði mér í hnénu og ég gat farið heim. Í millitíðinni höfðu félagar mínir stýrt verkefninu með góðum árangri.

Ég var fegin að ég valdi valkostinn gleði sem færði mér frið og hjálpaði mér síðan aftur á fætur.