Litaást

Ein fyrsta gjöf til mín sem ég man eftir er lítið sett af tempera litum. Síðar fékk ég sett af olíulitum, málaratrönur og málarastriga. Ég man eftir fyrsta “meistarastykki” mínu sem ég málaði þegar ég var 11 ára og var í sumarfríi í fjöllunum. Það var margra daga vinna og afraksturinn ekki merkilegur en tilfinning fyrir loknu verki geysileg.

Táningsárin sem í hönd fóru voru samansafn af tómstundaiðkaunum, listum, tónlist, stjórnmálum og öllu mögulegu. Síðan gifti ég mig og lagðist í ferðalög. Það var óhentugt að ferðast með olíuliti í farteskinu – og hvað um það, hver hafði tíma fyrir málun? Síðasta myndin sem ég málaði var af sólarlagi á Sikiley þegar ég gekk með fyrsta barn mitt.

Í mörg, löng ár gerðist ekkert á þessu sviði.

Þegar börnin voru lítil hvatti ég þau til að teikna og Mark, sonur minn var hneigður fyrir listir og varð með tíð og tíma teiknimyndateiknari. Hann spurði oft: “Mamma, hvers vegna byrjarðu ekki aftur að teikna og mála?”

Eitt skipti í lok heimsóknar til mín spurði hann að þessu aftur og spurði hvort ég vildi mála svolítið fyrir hann og í þetta skipti féllst ég á það. Ég skal segja þér, mér fannst óralangur tími síðan ég gerði síðasta málverkið af sólarlaginu á Sikiley og ég var mjög ryðguð! Ég átti erfitt með að höndla pensilinn og það leið drjúgur tími áður en það rifjaðist upp fyrir mér hver væri grundvallartæknin í blæbrigða málun.

Að mestu til þess að geðjast syni mínum lauk ég við málverkið en hafði í hyggju að leggja málaraáhöldin til hliðar eftir það en aðeins tveim mánuðum síðar báðu nokkrir vinir mínir mig um að hjálpa sér að mála vegg sem var 6×8 metra stór. Það skaut mér skelk í bringu og auk þess þurfti ég að vinna standandi í körfu á lyftara! Viðbrögðin urðu þó uppörvandi og í ljós kom að þetta varð upphaf nýs tómstundastarfs sem fólst í að mála veggi í skólum, sjúkrahúsum, unglingaathvörfum og einkaheimilum.

Núna nýt ég þess að breyta grámyglulegum, hrörlegum stöðum í litaveislur og glaðlegar myndir. Aldraður sjúklingur sagði eitt sinn í trúnaði að frá því að glaðlegir krakkar höfðu verið málaðir á vegginn andspænis stofu hans, var hann síður einmana! Þessa ánægðu krakka sköpuðum við með málningarpenslum okkar.

Ég trúi því að allir hafi innst inni einhverja leynda ástríðu sem aðeins þarf að vekja til lífsins. Að sjá viðbrögð fólks þegar rými þess er umbreytt hefur vissulega vakið aftur upp hrifningu mína af listum og núna eru málaraáhöld mín alltaf til taks þegar beðið er um skreytingu á gráum vegg.