Gerir þetta til frambúðar

Það er svo yndislegt að hugsa um jötuna, englana og nóttina þegar Jesús kom til jarðarinnar. Við einbeitum okkur að þessari hugsun í nokkrar vikur yfir jólahátíðina og ef til vill hugsum við um þetta öðru hvoru allt árið.

En þetta var aðeins hluti af enn yfirgripsmeiri mynd. Jesús skaust ekki bara niður á jörðina svo að englarnir gætu hvatt Hann til dáða. Það var upphafið í óendanleika eilífðarinnar. Alla daga eftir þessi fáu ár sem Jesús var á jörðinni hafa Hann og hinn Heilagi andi verið með þeim sem leita eftir návist Hans; Hann vinnur alla daga, líf eftir líf, að því að bænheyra þá sem þjást af hjartasorg.

Þolinmæði Guðs er alltaf til staðar þegar við fálmum eftir einhverju og hrösum um eitthvað eða flækjumst í vandræði. Honum er umhugað um hvert einstakt atriði í þínu lífi og mínu og Hann er skuldbundinn okkur að eilífu. Jesús gerir þetta til frambúðar.

Stærsta gjöfin, sem við getum fært Jesú í staðinn, er sú að deila fagnaðarboðskapnum um frelsun Hans með þeim sem eiga í baráttu og hafa villst af leið. Við getum átt von á himnasælu og upplifað huggun Heilags anda á erfiðum tímum, á meðan svo margir aðrir þekkja ekki eða treysta ekki á kærleika Guðs og horfast í augu við endalausa baráttu við að finna tilgang með lífinu og öðlast vitneskju um það að lífið er svo sannarlega þess virði að lifa því.

Jafnvel þótt að allt það, sem við gerum til þess að hjálpa öðrum til að treysta á kærleika Guðs, sýnist smávægilegt í samanburði við þörfina, þá getur árangurinn leitt af sér ennþá betri niðurstöður en við getum nokkurn tímann ímyndað okkur. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er hluti undursamleika jólanna allt það sem hefur verið áorkað með svo smávægilegri byrjun. Það sem byrjaði með pínulitlu barni, í pínulítilli jötu, í pínulitlu þorpi og í pínulitlu landi, varð að stórri, eilífri gjöf til handa óteljandi mönnum og konum í tíma sem hefur engin takmörk.

Guð gerðist skuldbundinn okkur án endis og án takmarkana. Allir sem opna hjarta sitt gagnvart Honum geta verið vissir um öryggi alla tíð í örmum Hins Eina sem setur engin takmörk fyrir óendanleika kærleika Síns. Allt í einu, jafnvel sjónarspilið á himnum þá nótt með alla englana, virðist tilkomulítið í samanburði við þau undur sem Sjálfur Guð kom með til jarðarinnar til að færa þér og mér persónulega.