Ein á Jólunum

Ég hafði verIð að reyna að hugsa ekki um jólin. Ég kveið fyrir jóladeginum og vonaði að einhver engill kæmi inn í líf mitt og reddaði öllu saman. Ég reyndi jafnvel að láta sem þetta væri bara venjulegur dagur, ekki sérstakur dagur, í voninni um að einmanaleikinn hyrfi en ég gat ekki losnað við hann; jólin voru alls staðar í kringum mig og ég var alein. Það var enginn til staðar til að tala við, enginn til að hlæja með og enginn sem, gat óskað mér gleðilegra jóla.

Til þess að reyna að gleðja sjálfa mig, reyndi ég að minnast gleðilegra minninga til þess að fylla hugann. Ein minningin, sem skaust upp í kollinum, var um kennarann minn í sunnudagaskólanum. Hann var rólegur og vingjarnlegur maður sem varði töluverðum tíma með okkur börnunum og hafði lag á því að gera hlutina skemmtilega. Hann sagði að Jesús væri gleðigjafinn í sínu lífi. Þessi orð hans fóru í gegnum hugann þegar ég hugsaði til baka til bernskuáranna: „Taktu bara Jesú með þér.“

Myndi það virka? Ég íhugaði það. Ég var ein – enginn kæmi til með vita af þessu. Svo ég ákvað þá að gera Jesú að vini mínum allan daginn.

Við gerðum alla hluti saman; við drukkum heitt kakó við arineldinn, gengum saman um göturnar, hlógum og veifuðum til vegfarenda. Ég gat næstum fundið fyrir handlegg Hans utan um mig hvert sem ég fór og mér fannst ég heyra rödd Hans tala til mín. Með hvísli, sem var handan við ríki hins heyranlega hljóðs, sagði Hann mér að Hann elskaði mig – já, mig – og að Hann myndi ávallt vera vinur minn. Einhvern veginn vissi ég að ég myndi aldrei vera ein aftur.

Þegar ég lagðist til svefns þetta jólakvöld, var ég svo innilega hamingjusöm, það ríkti yfir mér friður og ég var alsæl. Þetta var svolítið skrítið en samt ekki. Ég hafði varið deginum með Jesú og ég vonaði bara að aðrir hefðu átt jafn hamingjuríkan jóladag og ég.