Ég elska lífið!

Veggirnir í svefnherberginu mínu lýsast upp við skin sólar á nýjum degi. Ég nudda augun, teygi úr mér og geispa á meðan ég læt hugann reika um liðna atburði. Krókaleiðir lífsins hafa leitt mig til uppgötvunar—þótt margir aðrir hafi fyrir löngu komist að þessu leyndarmáli. Ég hef uppgötvað hvað það er sem gerir manneskju hamingjusama og hvernig ég get orðið það líka.

Í mörg ár var aðalmælikvarði minn fyrir gleði góð heilsa og sársaukaleysi. Gleði var erfitt markmið fyrir mig vegna þess að ég ólst upp við astmasjúkdóm og aðra heilsubresti! Með tímanum hefur sá sem ég taldi helsta óvin hamingju minnar orðið besti kennarinn minn um málefnið.

Þegar ég var sextán ára var gerður á mér bráðauppskurður þar sem numin var brott rifin kolbrandsblaðra og varði ég nýársdegi á spítala. Þegar ég steig upp úr hjólastólnum og tók fyrstu skrefin eftir uppskurðinn gat ég varla hamið gleði mína! Þessi hægu óöruggu skref voru besta nýjársgjöfin sem ég hefði getað óskað mér. Ég gerði mér skyndilega ljóst að gleði getur hlotist af jafn einföldum hlut og að geta gengið.

Þó það geti hljómað asnalega gladdist ég líka yfir því að geta farið hjálparlaust á klósettið. Eftir uppskurðinn var ég bundin við þvaglegg í allmarga daga. Þegar ég var loks laus við hann og mér var kleift að fara á klósettið, var ég full þakklætis fyrir hlut sem ég hafði alltaf tekið sem sjálfgefnum.

Önnur uppspretta gleði er að geta andað auðveldlega. Astmasjúkdómurinn hefur vakið mig til umhugsunar um þá blessun að geta andað en upplifun fyrir nokkrum árum veitti blesssuninni nýja merkingu. Ég fór í sneiðmyndatöku fyrir magann á stóru sjúkrahúsi og þegar ég var komin hálfa leið í myndatökunni var sprautað í mig skuggaefni. Án þess að okkur væri kunnugt um það gat þetta efni verið mjög hættulegt astmasjúklingum. Þegar vökvinn barst í blóðrásina fann ég fyrir hræðilegum sársauka sem og miklum þrýstingi í lungunum. Á fáeinum mínútum fékk ég eitursjokk sem mikil ofnæmisviðbrögð ollu. Í flýti var ég færð inn á bráðadeild þar sem hjúkrunarfræðingar gáfu mér mótefni og tengdu mig við öndunarvél. Tveim átakamiklum stundum síðar var ég loks úr lífshættu.

Ég mun aldrei gleyma líðan minni við heimkomuna. Ég stóð við glugga í rósrauðum litbrigðum sólarlagsins og andaði djúpt og hugsaði, ég get aftur andað sársaukalaust, ég er hér, ég er á lífi! Óafmáanleg minning frá þessum degi hefur orðið að prófsteini fyrir líf mitt. Hvenær sem ég er kraftlaus eða lúin endurlifi ég þessi augnablik og finn aftur gleðina við blessunina sem ég hef notið.

Eldraunin hefur einnig fyllt mig þakklæti fyrir sjónina. Við hámark ofnæmiskastsins hafði andlit mitt þrútnað svo mjög að ég gat varla opnað augun. Ég þráði að sjá föður minn sem stóð við rúmið og hélt í höndina á mér en ég sá aðeins óskýrt móta fyrir honum í gegnum rifu sem augnlokin mynduðu. Þegar ég varð aftur fær um að opna augun gat ég ekki hætt að horfa á allt í kringum mig í spenningi og aðdáun.

Að geta gengið, farið á klósett, andað og séð—satt er það að mælikvarði minn fyrir gleði hefur breyst með róttækum hætti. Ég gleðst yfir fleiru en ég nokkurn tímann taldi mögulegt áður og mér lærist að hamingjan tengist ekki kringumstæðunum heldur miklu heldur sjónarhorni. Líf mitt er fullt af áskorunum og gleðiefnum—allt jafn mikið fagnaðarefni!

Ég opna aftur augun og sest upp. Gullinn sólargeisli flæðir gegnum gluggann og yfir rúm endann. Ég hreyfi tærnar í skini hans og brosi. Það er nýr dagur sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum!1

  1. Sálmarnir 118:24